Sjúkrapróf í janúar en ekki í maí
Við undirrituð teljum að alvarlega hafi verið brotið á fjölmörgum stúdentum við Háskóla Íslands með þeirri ákvörðun nokkurra deilda skólans að færa tímasetningu sjúkra- og upptökuprófa fyrir haustönn frá janúar fram í maí. Við hörmum þessa ákvörðun og skorum á háskólayfirvöld að endurskoða þetta fyrirkomulag sem við teljum verulega afturför fyrir þessa stúdenta. Nokkrar staðreyndir sem vert er að hafa í huga: - Ef fram fer sem horfir verða sjúkra- og upptökupróf fyrir haustmisseri háð í maí strax eftir vorprófin. - Á síðasta ári voru í fyrsta skipti höfð sjúkra- og upptökupróf í janúar í öllum deildum. Ákveðnir gallar komu í ljós þegar þetta nýja fyrirkomulag var prófað s.s. hvað varðar „misnotkun” nemenda á þessu kerfi. Við teljum þó að eðlileg vinnubrögð væru að reyna að sníða af þá vankanta sem upp komu í stað þess að hörfa strax til fyrra fyrirkomulags eða því sem næst. Í mörg ár hafa stúdentar barist fyrir því að sjúkra - og upptökupróf verði þreytt í janúar en ekki í ágúst. Við teljum að það að halda þessi próf í maí komi alls ekki til móts við gagnrýnina á ágúst-prófin. - Sú staðreynd að einungis sumar deildir hafa ákveðið taka upp þetta fyrirkomulag, en aðrar ekki, stuðlar að mismunun á milli nemenda innan sama skólans. - Þeir sem að ekki ná að klára 20 ECTS einingar fá ekki námslán hjá LÍN. Þetta þýðir að einstaklingar sem ná ekki lágmarks einingafjölda á haustmisseri fá námslánin sín ekki greidd fyrr en í maí í stað þess að fá þau í janúar. Að vísu er hægt að fá fyrirgreiðslu hjá bönkunum en sú fyrirgreiðsla er alls ekki ókeypis. - Svínaflensufaraldur herjar nú á landsmenn. Flensa þessi er ansi illskeytt og er fyrr á ferðinni en flensur undanfarinna ára. Þeir sem að veikjast eru oftar en ekki rúmliggjandi í 5-8 daga. - Breytingarnar geta haft áhrif á námsframvindu nemenda. Komið getur fyrir að nemandi veikist í miðri prófatörn sinni og þurfi því að taka tvö til þrjú próf sem sjúkrapróf. Miðað við nýja fyrirkomulagið hafa þessir nemendur fimm til tíu daga, eftir að vorprófum lýkur, til þess að lesa upp heila kúrsa, fimm til sex mánuðum eftir að kennslu í þeim lauk. Þetta er ekki nemendum bjóðandi og getur í versta falli haft áhrif á útskrift nemenda. - Þeir nemendur sem ætla í skiptinám á vormisseri hafa sumir hverjir ekki möguleika á að taka sjúkra- og upptökuprófin í maí því þeir yrðu í prófum á sama tíma úti. - Það verða haldin sjúkra- og upptökupróf í janúar en þau verða eingöngu fyrir þá nemendur sem eru að útskrifast í febrúar. Stór hluti þeirrar vinnu sem þessi próf krefjast fer því hvort sem er fram. Við teljum þetta fyrirkomulag, sem hér er mótmælt, gríðarlega afturför og krefjumst þess að þessi ákvörðun verði endurskoðuð hið snarasta. Í fremstu háskólum heims er nánast undantekningarlaust sá háttur á að nemendum gefst kostur á að þreyta sjúkrapróf eins fljótt og auðið er. Við drögum stórlega í efa að þessi ákvörðun muni hafa góð áhrif á gæði náms hér við Háskóla Íslands og óttumst að hún muni auka tvífall, þvert á fullyrðingar talsmanna þessarar breytingar. Við skorum á háskólayfirvöld, rektor og formenn þeirra deilda sem málið varðar að taka þessa ákvörðun til endurskoðunar.
Comment