Leikskólapláss fyrir börn í Reykjavík fyrir 2 ára afmælisdaginn!
Við undirrituð erum foreldrar barna í Reykjavík og skorum á borgaryfirvöld að tryggja öllum börnum leikskólapláss fyrir tveggja ára afmælisdaginn!
Við teljum það brot á mannréttindum þeirra að vera mismunað um menntun eftir búsetu foreldra, þar sem í flestum sveitarfélögum landsins fá börn úthlutað leikskólaplássi fyrir og um 18 mánaða aldur. Þetta er gert óháð skuldastöðu sveitarfélaganna og hefur eingöngu að gera með forgangsröðun þjónustu í hverju sveitarfélagi fyrir sig.
Önnur dagvistunarúrræði sem foreldrum bjóðast, dagforeldrar og ungbarnaleikskólar, vinna upp til hópa gott og metnaðarfullt starf en fylgja almennt ekki aðalnámsskrá Mennta- og menningarmálaráðuneytisins.
Námsskráin hefur meðal annars að meginmarkmiði að fylgjast með og efla alhliða þroska barna í náinni samvinnu við foreldra, skipuleggja málörvun og hlúa að börnum andlega, vitsmunalega og líkamlega í samræmi við þarfir hvers og eins. Skipulögð menntun er því engan veginn sambærileg á almennum leikskólum og hjá dagforeldrum/ungbarnaleikskólum.
Það er skýlaus krafa okkar að börnin okkar sitji við sama borð og jafnaldrar þeirra í öðrum bæjarfélögum og hljóti sambærilega menntun skv. aðalnámsskrá leikskóla.
Comment